Aðalfundur FUMÍS verður haldinn þriðjudaginn 11. febrúar kl. 16:00 í húsnæði Umhverfis- og orkustofnunar að Suðurlandsbraut 24.

Í samþykkt um félagið kemur fram að aðalfund skuli halda eigi síðar en 1. mars ár hvert og að til hans skuli boða með minnst þriggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti. Aðalfundur er löglegur óháð fundarsókn sé rétt til hans boðað. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Tillögur til breytinga á samþykktum eða lögum
  5. Ákvörðun félagsgjalda
  6. Kosning stjórnar
  7. Kosning skoðunarmanna reikninga
  8. Önnur mál

Meðfylgjandi er samþykkt um félagið. Samþykktum félagsins má einungis breyta á aðalfundi og þarf til þess einfaldan meirihluta fundarmanna. Tillögur til framlagningar á aðalfundi, til breytinga á samþykktum félagsins skulu sendar stjórn félagsins á netfangið fumis@fumis.is í síðasta lagi 14 dögum fyrir aðalfund þ.e. ekki síðar en 28. janúar. Berist félaginu tillögur til breytingar á samþykktum félagsins eða leggi stjórn til breytingar verða þær tillögur sendar út með dagskrá aðalfundar ekki síðar en einni viku fyrir aðalfund, þ.e. ekki síðar en 4. febrúar, sbr. samþykkt um félagið.

Á stofnfundi félagsins var kjörin stjórn, skipuð 5 aðilum, og einum til vara. Þrjú voru kosin til tveggja ára m.a. fulltrúar Umhverfisstofnunar (nú Umhverfis – og orkustofnun) og heilbrigðiseftirlits sbr. ákvæði 7. gr. samþykktar um félagið. Til eins árs voru kjörin tvö og ein til vara. Á aðalfundi verður því kosið um tvö sæti stjórnarfólks og allt að tvö til vara, öll til tveggja ára.

Áhugasamt fólk er hvatt til að bjóða fram krafta sína og koma að því að móta stefnu og starf félagsins. Fjölbreyttur bakgrunnur stjórnarfólks er styrkur fyrir starfsemina. Framboð til stjórnar skal senda á netfangið fumis@fumis.is fyrir aðalfund.

Bestu kveðjur, Stjórn FUMÍS

Share this post